Það gleður Mýrina að tilkynna að Malene Sølvsten verður gestur hátíðarinnar í ár. Hún er danskur höfundur fantasíubóka, fædd árið 1977. Frumraun hennar, Ravnenes Hvisken kom út árið 2016 í Danmörku. Önnur bókin í þríleiknum kom út ári síðar og er von á síðustu bókinni seinna á þessu ári. Á íslensku hefur fyrsta bókin Hvísl Hrafnanna komið út hjá forlaginu Uglu, og er önnur bókin væntanleg á haustmánuðum. Í sögunum segir af unglingsstúlkunni Önnu sem elst upp í lítilli borg á Norður Jótlandi. Hún býr yfir þeirri gáfu að sjá ljóslifandi atburði úr fortíðinni og fara undarlegir hlutir að gerast. Anna er hundelt af illskeyttum morðingja og aðeins hennar nánustu vinir standa í vegi fyrir að hún verði illmenninu að bráð. Til þess að bjarga heiminum undan ragnarökum verður Anna að finna morðingjann — áður en hann finnur hana. Malene Sølvsten býr og starfar í Kaupmannahöfn. Lesa meira …