Benjamin Chaud fæddist árið 1975 í Suður-Frakklandi. Hann nam við listaskólana Les arts appliqués í París og Les Art Décoratifs í Strasbourg. Fljótlega eftir útskrift sem myndskreytir var Chaud tvívegis boðið að taka þátt á Barnabókamessunni í Bologna. Benjamin hefur búið bæði í París og Marseille en býr núna í Die í Suður-Frakklandi. Útgefendur hans í Frakklandi eru Hélium og Albin Michel og í Bandaríkjunum hafa bækur hans komið út hjá Chronicle Books.
Árið 2011 kom bókin Une chanson d’ours (Bangsi litli í sumarsól) út. Stóri björn leitar að litla birni sem hefur horfið úr hýðinu. Litli björn er hins vegar að elta býflugur því þar sem býflugur eru, þar er hunang! Leit þeirra að hvor öðrum og hunangi ber þá inn í stórborgina og inn í iðandi óperuhús þar sem kærkomnir endurfundir eiga sér stað. Sögurnar um Litla björn og Stóra björn (eða Pabba björn eins og vel mætti kalla hann) unnu samstundis hug og hjörtu lesenda á öllum aldri. Í allt hafa fjórar bækur komið út um þá feðga, þar af ein á íslensku, Bangsi litli í sumarsól í þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur. Bækurnar Bangsi litli í sumarsól og Ég lærði ekki heima af því að … hafa komið út hjá forlaginu Angústúru. Síðarnefndu bókina myndskreytti Chaud en söguna samdi Davide Cali.
Bækur Benjamin Chaud hafa vermt metsölulista víða um heim, honum hefur hlotnast Gullorða Samtaka myndskreyta í New York jafnframt því sem hann situr í dómnefnd verðlauna um bestu myndskreyttu barnabækurnar á Barnabókamessunni í Bologna.