Aleksandra og Daniel Mizielinski eru fædd árið 1982 í Póllandi. Þau lærðu grafíska hönnun í Listaháskólanum í Varsjá og eru stofnendur Hipopotam Studio en þar framleiða þau, hanna, skrifa og myndskreyta bækur fyrir börn og fullorðna. Hjónin eru tengd hinni nýju barnabókabyltingu eða hreyfingu sem orðið hefur í Póllandi hin seinni ár þar sem frakkur stíll þeirra, sem sækir uppruna sinn til teiknimyndasagna, nýtur sín til fulls.
Aleksandra og Daniel hafa sérhæft sig í gerð alfræðirita fyrir börn þar sem minnstu smáatriði fá notið sín í fallegri hönnun þeirra. Bækur þeirra hafa verið útgefnar í fleiri en þrjátíu löndum og hefur bókin Maps eða Kort komið út hjá Forlaginu. Í bókinni Kort er spurningum á borð við hvaða tungumál eru töluð á Indlandi, hvaða villtu dýr reika um Rússland, hverjir eru þjóðarréttir Þýskalands og hvað heitir Pólland á pólsku svarað og mörgu fleiru til. Bókin Kort hefur selst í yfir 3 milljónum eintaka á heimsvísu.
Tvíeykið hefur hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar fyrir ólíka hönnun sína, allt frá letri og heimasíðum, upp í einstaklega falleg bókverk, meðal annars hin virtu BolognaRagazzi verðlaun (2010), frönsku Prix Sorcières (2013) og hin ítölsku Premio Andersen (2013) verðlaun.