Peter Madsen er myndlistarmaður og teiknari, rithöfundur, kvikmyndagerðarmaður og fyrirlesari. Hann fæddist árið 1958 í Árósum í Danmörku. Aðeins 15 ára gamall gaf hann út fyrstu teiknimyndaseríur sínar en hann venti þó kvæði sínu í kross og lærði læknisfræði eftir menntaskóla.
Árið 1984 snéri hann sér alfarið að listinni en það ár leikstýrði hann teiknimyndinni Valhalla en þekktastur er hann vafalaust fyrir samnefndan bókaflokk af teiknimyndasögum (Goðheimar á íslensku) Bækurnar, sem komu út á árunum 1979-2009 í Danmörku segja á skondinn hátt af ásum og goðum Norrænnar goðafræði.
Auk þess að skrifa og myndskreyta bækur hefur Peter Madsen hannað bókakápur og plötuumslög, plaköt og myndskreytt fyrir tímarit og dagblöð. Ein af þeim bókum sem hann hefur myndskreytt er Skólabiblían eftir Bodil Busk Sørensen (útg. Árið 2000) og Troldehistorien (Tröllasaga) eftir Rune Kidde en Peter hefur átt í gifturíku samstarfi við marga af þekktustu rithöfundum og fyrirlesurum í Danmörku, meðal annars Johannes Møllehave. Í samstarfi við eiginkonu sína, Sissel Bøe, hefur hann myndskreytt bækurnar Tröllalíf (e. Troll-life) en alls hafa 17 bækur komið út í þeim bókaflokki. Hann býr í Allerød í Danmörku ásamt eiginkonu sinni, hann á tvö börn, tvö stjúpbörn og ört stækkandi hóp af barnabörnum.