Rasmus Bregnhøi er danskur mynd- og rithöfundur. Hann hefur á 25 ára ferli myndskreytt yfir eitt hundrað bækur fyrir börn, teiknimyndasögur og myndasögur fyrir fullorðna ásamt því að myndskreyta fyrir dagblöð og tímarit.
Hann er fæddur árið 1965 og lærði upphaflega prentsmíði en fór eftir það í Danmarks Designskole þaðan sem hann útskrifaðist sem teiknari.
Á námsárum sínum kom hann einnig til Íslands og lærði í Myndlista- og handíðaskólanum sem síðar varð Listaháskóli Íslands. Rasmus hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar á ferli sínum,
m.a. Kulturministeriets illustratorpris, Blixenprisen, Søren Gyldendals rejselegat, Skriverprisen, Skolebibliotikar prisen og þegið listamannalaun frá Statenskunstfond í Danmörku. Árið 2017 var Rasmus ásamt Annette Herzog og Katrine Clante tilnefndur til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir bókina Hjertestorm eða Stormhjarta. Myndir Rasmus eru litríkar og fígúratívar og smáatriði fá notið sín. Hann leikur sér óheft með ólíkar aðferðir, samsetningar og persónusköpun þar sem myndir hans á stundum virka súrrealískar, en eru samt svo raunverulegar.
Bækur Rasmus hafa komið út í Svíþjóð, Noregi, Færeyjum, Þýskalandi, Ítalíu, Albaníu og í Síle og hann hefur haldið sýningar víða, meðal annars í Japan, Kína, Lettlandi, Grænlandi, Mexíkó, Ítalíu og Slóvakíu. Árið 2016 kom teiknimyndasagan Rasmus skriver en Nordisk børnebog eða Rasmus skrifar Norræna barnabók út en þar gerir höfundurinn góðlátlegt grín að því hvað þurfi til að skrifa barnabók þannig að hún flokkist sem ”Norræn”.
Rasmus Bregnhøi býr og starfar í Kaupmannahöfn.