Rán Flygenring er fædd árið 1987. Hún er myndskreytir og grafískur hönnuður frá Reykjavík. Rán starfar sjálfstætt að verkefnum víða um heim, myndskreytir, ritstýrir og kemur fram á hinum ýmsu listahátíðum svo fátt eitt sé nefnt. Að loknu stúdentsprófi árið 2006 lærði Rán grafíska hönnun við Listaháskóla Íslands og fór í framhaldsnám til Oslóar þaðan sem hún lauk Mastersnámi í hönnun árið 2015.
Lokaverkefni Ránar frá Listaháskóla Íslands Stundum kom út árið 2009 og í kjölfar þess kom hún að útgáfu á meira en 10 verkum, ýmist sem myndskreytir eða hönnuður og oftast í samstarfi við þýska rithöfundinn Finn-Ole Heinrich. Samstarf þeirra tveggja hefur verið einstaklega gjöfult og hafa þeim hlotnast margvísleg verðlaun og viðurkenningar. Til að mynda Deutscher Jugendliteraturpreis, the German-French literature prize 2013, The Jahres-Luchs prize 2014 sem veitt eru af Die Zeit og Radio Bremen. Árið 2014 voru Rán og Finn-Ole svo tilnefnd til Alma verðlaunanna sænsku, bókmenntaverðlauna til minningar um Astrid Lindgren. Sama ár tók Rán svo við Serafina verðlaununum í Þýskalandi (German Academy of Children’s and Youth Literature Illustration prize) fyrir myndskreytingar sínar.
Fuglar er nýleg afurð Ránar en hana gerir hún í samstarfi við Hjörleif Hjartarson. Bókin vakti strax mikla athygli og viðurkenningar og var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar.
Rán kemur að margvíslegum verkefnum, meðal annars á vegum Hins hússins og hún sýnir víða, nú síðast í Gröndalshúsi í Reykjavík þar sem sýningin Egg (Eggshibition) var sett upp í tengslum við HönnunarMars.
Í samstarfi við Goethe-Institut í Danmörku.