Þorgerður Agla Magnúsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1972 en ólst upp vestur í Önundarfirði til 17 ára aldurs. Hún lauk B.A.- prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í menningarstjórnun frá Queen Margaret University í Edinborg í Skotlandi. Hún hefur búið á Ítalíu, Skotlandi og Tævan. Agla starfaði hjá Bókmenntasjóði og svo seinna Miðstöð íslenskra bókmennta árin 2008- 2016 og vann þar m.a. við styrkveitingar til þýðinga og útgáfu og kynningar á íslenskum bókmenntum erlendis. Haustið 2016 stofnaði hún bókaútgáfuna Angústúru ásamt Maríu Rán Guðjónsdóttur. Bókaútgáfan Angústúra leggur áherslu á að gefa út spennandi og fallegar bækur frá öllum heimshornum í vönduðum þýðingum. Meðal útgáfuverka Angústúru eru barnabækur Benjamins Chaud, fjölskyldubókin Fuglar eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring, sem var m.a. tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017, og 6 þýdd skáldverk í ritröðinni Bækur í áskrift, þar á meðal Allt sundrast eftir Chinua Achebe, Einu sinni var í austri eftir Xiaolu Guo og Sakfelling. Forboðnar sögur frá Norður-Kóreu eftir Bandi. Þorgerður Agla tekur þátt í málstofunni DEIGLAN – ÍSLENSKAR BARNABÆKUR Í DAG OG Á MORGUN á laugardaginn 13. október.