Galdur úti í mýri 2004
Fyrsta hátíðin, Köttur úti í mýri hafði heppnast vel og ákveðið var að halda Úti í mýri í annað sinn 2004. Þemað voru galdrar og leyndardómar þeirra og hét hátíðin því Galdur úti í mýri.
Meðal gesta hátíðarinnar voru Tomi Kontio frá Finnlandi, Gunilla Arnbjörnsson frá Svíþjóð, Lene Kaaberbøl frá Danmörku, Solrun Michelsen frá Færeyjum, Mary Hoffman frá Englandi og Arthur Slade frá Kanada.
Á dagskrá voru upplestrar, fyrirlestrar, sýningar og málstofur. Arthur Slade las úr bók sinni „Loki Wolf“ og Þorvaldur Þorsteinsson flutti nýjustu fréttir úr ævintýraskóginum. Grétar Hallur Þórisson og Pétur Björnsson stóðu fyrir tónlist og fjöldasöng. Haldin var galdrasýning, með uppákomu frá Galdrasýningunni á Ströndum: Leyndardómur galdrastafa – þorir þú að kíkja? Höfundar lásu upp úr bókum sínum, spjölluðu við hátíðargesti og árituðu bækur. Dagný Kristjáns stýrði höfundaspjalli. Þeir heimsóttu einnig skóla og lásu fyrir nemendur í skólum og á Borgarbókasafninu. Erlendir gestir fluttu fræðileg erindi.