Smásögur

Á vormánuðum 2012 var haldin smásagnasamkeppni í öllum grunn- og framhaldsskólum landsins á vegum Matur úti í mýri og Samtaka móðurmálskennara. Fjölmargar frábærar sögur skiluðu sér til dómnefndar en átta sögur þóttu bera af og hljóta höfundar þeirra viðurkenningar og bókaverðlaun. Sögurnar eru birtar hér með góðfúslegu leyfi höfunda.
 

Holukjöt

eftir Heiðar Óla Guðmundsson

Það var einu sinni strákur sem hét Ægir.  Hann fylgdist alltaf með mömmu og pabba elda holukjöt í bústaðnum.  Holukjöt er lambalæri sem sett er á nokkuð af kryddi og vafið í álpappír.  Síðan er grafin hola og hituð kol.  Þegar kolin eru orðin heit þá lætur maður kjötið í holuna.  Maður bíður síðan í klukkutíma og þá er kjötið tilbúið.  Pabbi kom með kjötið.  Ægir smakkaði kjötið og sagði mmmm, gerðu jarðálfar kjötið?  Nei, ég gerði kjötið, sagði pabbi hans.  Ægir kláraði góða holukjötið og fór út.  Hann fór að holunni og kíkti hvort álfar væru í holunni.  Hann sá ekki álfa.  Hann hugsaði hvað það væri sem gerði kjötið svona gott.  Svo fattaði hann að það var loftið og kolin sem gerðu kjötið svona gott.

Köld súpa

eftir Guðjón Þór Lárusson

 Skerandi hljóð þegar diskur brotnaði ómaði í gegnum húsið. Húsið var dimmt fyrir utan nokkur kerti sem loguðu hér og þar uppi í glugga. Útidyramottan var útötuð í fótsporum. Ryk lá alls staðar í hornunum og gluggarnir voru skítugir eins og þeir hefðu ekki verið þrifnir í óratíma.
Eldhúsið leit út eins og eftir sprengingu. Óþvegnir pottar og pönnur fylltu vaskinn og lágu alls staðar á gólfinu. Í stofunni heyrðist slepjulegt hljóð eins og þegar eitthvað rennur hægt niður vegg. „Kallarðu þetta mat, helvítið þitt?!“ var öskrað.
Herbergið var síst skárra en hinir hlutarnir af húsinu. Stólar lágu á hliðinni eins og þeim hefði verið hrint. Viðarveggirnir voru fúnir og daufhvítir eins og þeir hefðu verið málaðir fyrir löngu. Matardúkurinn á borðinu var þakinn blettum.
Sá sem hafði kastað var maður á miðjum aldri. Hárið hékk í lufsum niður meðfram andlitinu og kinnum. Á miðjum hvirflinum var byrjaður að myndast skalli. Hann var klæddur í snjáð grá jakkaföt, rósamunstur vafið í. Blá augun skutu gneistum á strákinn sem sat í hnipri á gólfinu.
Hann var klæddur í föt sem voru þakin drullu og alltof stór fyrir hann, þau héngu utan á honum. Líkamsbygging hans gaf til kynna að hann væri tíu ára. Úr svörtu hárinu láku leifar af sósu og kjöti. Sums staðar skörtuðu handleggirnir sárum.
„Heldurðu að ég geti étið eitthvað svona?!“ öskraði hann. „Fyrirgefðu pabbi!“ sagði strákurinn veiklulega. Hann féll á hliðina og rak upp andköf þegar fótur pabba hans kom á fleygiferð í hliðina á honum.
„Heldurðu að þú getir bara sagt ‚fyrirgefðu‘?!“ sagði hann og sparkaði með nýfengnum krafti í son sinn. „Mér væri nær að henda þér og systur þinni út“ öskraði hann og froðufelldi. Fruss lenti á kinn stráksins og rann niður vangann en hann blikkaði ekki einu sinni. Það var eins og allt líf var farið úr augunum.
Hann sparkaði og sparkaði þangað til hann virtist þreytast. „Farðu inn í eldhús og útbúðu eitthvað sem er gott handa mér – virkilega gott,“ sagði hann og sparkaði lauslega í síðasta sinn í strákinn. Strákurinn lá ennþá á grúfu á gólfinu. „Drífðu þig“ öskraði hann. „Og taktu þessa plöntu með þér“ sagði hann og benti á neríuna sem stóð uppi í glugga. „Það þarf að vökva hana“. Strákurinn stóð hægt upp. Skerandi sársauki barst upp síðu hans en hann neyddi sjálfan sig til að haltra inn í eldhús með plöntuna í hendinni.
Hann tók upp potta og pönnu og byrjaði að þrífa. Faðir hans vildi hafa allt hreint sem borið væri fram. Samt stóð honum á sama um hvernig hann gekk frá hlutunum. Hann skrúfaði frá krananum og setti plöntuna undir bunandi vatnið. Þessi planta var eiginlega það eina sem föður hans þótti vænt um.
Hann renndi hendinni hægt eftir stönglinum og upp til bleikra blaðanna. Hann herti takið um plöntuna og sælutilfinning vall upp í honum. Þrusk heyrðist bak við hann og hann leit við. Klædd í bláan náttkjól og með bangsa í hendinni var lítil stelpa. Hún nuddaði annað augað og renndi hendinni í gegnum svart hárið.
„Hvað er á seyði, Skuggi?“ spurði hún. Skuggi rak upp stór augu og leit til hliðar inn í stofuna þar sem hljóð frá fótboltaleik ómuðu í sjónvarpinu. „Aría, þú átt ekki að vera vakandi svona seint!“ sagði hann. En Aría var glaðvakandi. Hún rak augun í sárin á handleggjunum. „Var hann vondur aftur?“ spurði hún og röddin skalf. Skuggi bældi niður skjálftann og brosti bróðurlega.
„Það er ekkert sem þú þarft að hafa áhyggjur af“ sagði hann. „Farðu aftur að sofa“, sagði hann. En honum til undrunar faðmaði Aría hann skyndilega að sér. Hann kipptist við og ætlaði að losa sig en Aría faðmaði hann bara fastar. Blá augun störðu upp í græn. Tárin runnu niður andlitið og hún gróf sig í skítugri skyrtu hans. „Hvað er að taka svona langan tíma?“ heyrðist öskrað úr stofunni. Skuggi fann Aríu herða takið á sér.
„Þetta er alveg að verða tilbúið!“ kallaði hann til baka. Hann rétti varlega út hönd og lagði hana á kollinn hennar. Hann renndi hendinni aftur og aftur í gegnum svart hár hennar. „Þú verður að vera sterk,“ sagði hann. „Þú veist hvað pabba finnst um að þú grátir.“ Stórt ‚sipp‘ heyrðist þegar það kom rifa í skyrtuna.
„Ég er svo hrædd,“ sagði hún. „Af hverju er þetta svona, hvað gerðum við?“ Skuggi kreisti fram bros. „Ég veit það ekki,“ sagði hann rólega en var sjálfur lafhræddur. „Ég þoli þetta ekki lengur,“ sagði Aría. „Af hverju er hann svona vondur?“ „Ef maturinn fer ekki að koma þá kem ég og tek á þér!“ var öskrað.
Skuggi rak augun í plöntuna sem var ennþá undir vatninu. Vatnið frussaðist í allar áttir og lak sums staðar niður á gólf. Hann tók ákvörðun. „Engar áhyggjur,“ sagði hann og klappaði henni á kollinn. „Farðu aftur að sofa. Mundu það sem mamma sagði alltaf.“ Aría kinkaði kolli.
„Það sem er ekki í dag verður kannski á morgun.“ sagði hún. Skuggi kinkaði kolli. „Farðu nú aftur að sofa.“ sagði hann og nuddaði hárið á henni. Hvítar flyksur féllu úr skítugu hárinu og niður á gólf. Það brakaði í gólffjölunum þar sem hún gekk út úr eldhúsinu. Skuggi opnaði skápa. Það hlaut að vera eitthvað hérna. Eitthvað sem hann gat notað. Hann opnaði skápinn skápinn og glotti við tönn
Skýin liðuðust frá tunglinu sem breiddi ljósa lokka sína um stofuna. Skuggi haltraði inn í stofuna með bakkann í hendinni. Hvert skref sem hann tók sendi gríðarlegan sársauka upp eftir lærunum en hann neyddi sjálfan sig áfram. Hann lagði skítugan súpudiskinn á borðið fyrir föður sinn. Súpan var appelsínugul á litinn með smá grænt í henni. „Afsakið biðina“ sagði hann.
Það rumdi í föður hans og hann tók skeiðina upp og Skuggi horfði fullur kvíða þegar vökvinn rann inn fyrir munnvikin. Skeiðin flaug í gegnum loftið og lenti með skelli á enni Skugga. „Hvað í andskotanum er þetta?!“ sagði faðir hans. „Heldurðu að ég geti borðað svona kalda súpu?!“
Skuggi nuddaði ennið sem var farið að skarta rauðum lit og tók skeiðina upp án þess að bregða svip. „Ég biðst afsökunar en þetta er mjög sérstök gerð af súpu. Hún á að vera köld“ sagði hann. Faðir hans lyfti augabrún en dýfði sér aftur í súpuna. Ánægjugurgl kom frá honum þar sem súpan lak niður munnvikin og í skeggið.
„Hvers konar súpa er þetta eiginlega,“ sagði hann. „Ég get ekki fengið nóg.“ Skuggi glotti við tönn.  „Ekki slæmt hjá þér.“ sagði pabbinn og strauk vætuna úr skegginu. „Það er gott hvað  þú leggur þig fram. En þið ættuð að meta meira hvað ég geri fyrir ykkur börnin,“ sagði hann þar sem hann slafraði í sig súpuna. Skuggarnir liðuðust um andlit Skugga en hann sagði ekki neitt. „Á endanum hafið þið ekkert nema mig. Fjölskyldan skiptir öllu,“ sagði hann.
Tunglsljósið lýsti upp hlutlaust andlit Skugga þar sem hann kom neríunni fyrir í glugganum. Hljóð eins og einhver væri að kafna heyrðist fyrir aftan hann. Plantan hékk dálítið lufsulega niður. Hann lagaði hana og passaði að hún væri upprétt. Hrafn gargaði fyrir utan. Hann leit við.
Súpan hafði dreifst út um allt borðið þar sem faðir hans hafði lent með höfuðið í súpudisknum. Froða vall út úr munni hans og niður í diskinn. Augun voru uppglennt og hendurnar voru um hálsinn eins og hann hefði verið að reyna að klóra eitthvað þar úr. Plantan valt á hliðina og þá kom í ljós að það vantaði rótina.
„Já“ sagði Skuggi lágt. „Fjölskyldan er mikilvægust.“ Húsið virtist halda niðri í sér andanum þar sem hann gekk út úr stofunni og lokaði varlega á eftir sér.
 

Ísgerðarmaðurinn

eftir Óskar Magnús Harðarson

Eitt sinn var íssölumaður sem bjó til hinn ótrúlegasta ís. Hvaða kröfur sem viðskiptavinir komu með gat hann alltaf uppfyllt þær. Eitt sinn kom maður sem vildi fá ís í líkingu við Eiffelturninn. Hann átti að fá viku til að gera hann. Maðurinn fékk ísinn sinn eftir 4 daga. Síðan var afsláttur fyrir börn og á heitum dögum.
Einn dag kom lítill strákur inn í ísbúðina og sagði að það væri keppni um að gera flottustu myndina úr rjómaís, „og þú ert besti ísgerðarmaður í heiminum“. Hann hugsaði sig um og ákvað að taka þátt svona einu sinni og þá sagði strákurinn að hann hefði einn mánuð til að vinna að verkinu og ætti að koma með skúlptúrinn í lystigarðinn 20. maí. Hann hófst handa næsta dag (eftir að hafa gefið stráknum jarðaberjaís með súkkulaðikurli yfir). Hann ætlaði að gera eitthvað meiri háttar. Hann  fór í IKEA og keypti borð fyrir ísmyndina. Hann byrjaði á því að gera einn fót og síðan gerði hann hinn fótinn. Og á endanum var kominn lítill maður úr rjómaís á borðið. Síðan var komin framhlið á húsi og gluggar, síðan kom skilti framan á húsið og á það var skrifað með stöfum úr jarðaberjaís: ÍSBÚÐ ÍSGERÐARMANNSINS.
Að loknu verkinu var komin mjög nákvæm eftirlíking af ísbúðinni hans með honum að vinka fyrir framan. Síðan rann keppnisdagurinn upp. Það var fullt af skúlptúrum; kertastjaki, blómavasi, ís sem var búinn að bráðna í klessu og allskonar öðruvísi. Síðan voru valdir tveir ísar áfram sem þóttu mjög góðir. Það var kertastjakinn og mynd ísgerðarmannsins. Að lokum var kertastjakinn dæmdur sigurvegari vegna þess að allir héldu að ísgerðarmaðurinn hefði svindlað, því skúlptúrinn var svo fullkominn. Þrátt fyrir það voru viðskipti hans margfalt meiri en áður.

Endir

Eitrið

eftir Huga Kjartansson

Sturla var að tína gulrætur upp úr jörðinni og stakk þeim ofan í körfu fyrir aftan sig þegar hann sá Árna og hundinn hans stíga út úr húsinu. „Ó frændi góði viltu ekki koma út á akurinn, ég er orðinn allt of gamall fyrir svona vinnu“ sagði Sturla. „Ég get það ekki í dag, ég þarf að taka á móti honum herra Þórðarsyni, hann er að fara að kíkja á gamla hrossið, ó ég vona að það deyi ekki“ svaraði hann. „Er það í dag, ég var alveg búinn að gleyma.“ Ef ég hugsa um það þá er hann orðinn seinn. Hann stakk hendi sinni ofan í vasann og leit á úrið. „Guð minn góður klukkan er næstum orðin þrjú.“  Við þessi orð brunaði svartur bíll inn á lóðina. „Hann er kominn! Fljótur, taktu á móti honum.“
Árni hljóp yfir akurinn að bílnum. Hann opnaði dyrnar og gat ekki annað gert en að fá hroll yfir því sem hann sá. Það var  hávaxinn maður í jakkafötum og með háan pípuhatt, hann var með ógnandi augu, langt nef og næstum því engar varir. Árni opnaði munninn og sagði „Góðan daginn herra, er þetta ekki fallegur da…“ hann var truflaður af djúpri rödd mannsins sem sagði „Já já sýndu mér bara þessa geit eða kú eða hvað sem það var.“ Þó að Árni væri dálítið móðgaður sagði hann ekki neitt og leiddi manninn að hesthúsinu. Hann opnaði dyrnar og benti á hrossið. „Skildu mig bara eftir með því, ég þarf alveg fullkominn frið.“ Við þau orð gekk Árni út úr fjósinu aftur að Sturlu. „Það lítur út eins og ég geti kannski hjálpað þér í dag“ sagði hann. „Gott, þetta er líka allt of mikil vinna fyrir einn mann.“
Hann hafði unnið í svona fimm mínútur þegar hann sá herra Þórðarson hlaupa út úr grænmetisgeymslunni . „Ertu strax búinn, og hvað varstu að gera þarna inni?“  öskraði Árni. En hann hætti ekki að hlaupa, hann fór inn í bílinn og brunaði í burtu. „Hann gerði ekki mikið gagn,“ sagði Sturla. „Ég er farinn inn, ég held ég sé að verða lasinn og Sturla, ekki gleyma að fara með grænmetið niður í bæ,“ sagði Árni. „Allt í lagi, hvíldu þig vel,“ sagði Sturla á meðan hann þurrkaði svitann af enninu.
*
Árni vaknaði við hátt hljóð í eldhúsinu. Hann hljóp upp úr rúminu og tók kylfu með sér. Þar var lögreglumaður sem hélt föstu taki í frænda hans. „Hvað þykist þú vera að gera!“ hrópaði Árni. „Handtaka þennan mann fyrir að eitra grænmetið sitt.“ „Ég gerði ekkert“ reyndi Sturla að segja en lögreglumaðurinn greip fastar. „Þegiðu gamli maður! Þú ert búinn að láta meira en 37 manneskjur verða alvarlega veikar. Þú færð lífstíðardóm fyrir gerðir þínar,“ sagði lögreglan.
Þarna stóð Árni og hugsaði um hvernig þetta væri hægt á meðan lögreglumaðurinn reyndi að koma frænda hans út úr húsinu. Árni fór út og sá þar frænda sínum vera troðið inn í lögreglubíl. Hann var ákveðinn í því að finna hinn sanna sökudólg. Eftir nokkurra mínútna hugsun fór hann að líta í kringum sig til að finna einhverjar vísbendingar. Grænmetið var ekki eitrað þegar við vorum að tína það, við smökkuðum það. Þá hlýtur það hafa verið eitrað í geymslunni, hugsaði hann. Hann gekk að stóru geymslunni og fór inn. Þar voru margir kassar af grænmeti allt í kring.
Eftir mikla leit að vísbendingum fann hann litla flösku. Læknirinn hlýtur að hafa gleymt einni meðalaflöskunni sinni. Og þegar hann sagði þetta fattaði hann það. Hann opnaði flöskuna og fann lyktina. Þetta er ekki meðal – þetta er eitur! Hann hljóp út úr geymslunni og fór inn í húsið og greip í símann. Hann sló inn númerið og beið. „Góðan daginn, hér er lögreglan,“ var svarað. „Ég hef fundið sönnun um að Sturla hafi ekki eitrað grænmetið.“ „ Ég skal leyfa þér að tala við lögregluna sem er að rannsaka þetta.“ Það var pása en svo kom ný rödd. „Hvaða sönnun hefur þú í málinu?“ sagði röddin. „Ég fann flösku af eitri dulbúna sem meðal í geymslunni,“ sagði Árni. Röddin geispaði og sagði svo „Þú hefur alveg getað sett það þangað.“ „En ég gerði það ekki! Hefur þú einhverja sönnun fyrir því?“ Árni var búinn að fá nóg af þessu og skellti á. Hann mundi þurfa að finna almennilega sönnun.
Hann hljóp þá út og fleygði sér inn í bílinn sinn. Hann brunaði beinustu leið til bæjarins. Fólk leit skringilega á hann þegar hann brunaði að bænum. Þegar hann var kominn stökk hann út  úr bílnum og gekk smáspöl að sjúkrahúsinu. Hann fór inn og þar sat kona sem tók á móti honum og sagði „Góðan daginn! Ertu hér til að heimsækja einhvern eða er eitthvað að?“ „Ég vil tala við herra Þórðarson, hann vinnur hér, hann kom að lækna hestinn minn“ sagði Árni. „Í fyrsta lagi er hér enginn að nafni herra Þórðarson og við læknum ekki dýr.“ „Hvernig getur það verið? Hann sagðist vinna hér,“ sagði Árni. „Því miður herra.“ Við þau orð gekk hann út vonsvikinn. Hann hugsaði um eitthvað sem gæti hjálpað honum, hann tók ekki eftir neinu við manninn sem hann gæti hugsanlega notað, hann hlýtur að nota annað nafn og hann er ekki í alvörunni læknir.
Og þá allt í einu mundi hann eitt, hann mundi bílnúmerið hans. Það var  bh 27 æi ég gleymdi síðustu tölunni ég skal fara og skoða búðina sem seldi bílinn og hann gekk um hugsandi og hugsandi og svo BONK hann gekk á ljósastaur þá féll hann úr  hugsuninni og leit í kringum sig og þá sá hann svarta bílinn sem hafði komið á býlið. Bíllinn keyrði á götunni á litlum hraða og það leit út eins og hann tæki ekki eftir honum. Árni læddist hægt að bílnum og þegar hann var nógu nálægt greip hann í hurðina og kippti manninum út. „Hvað ertu að gera, láttu mig vera! Þú mátt hafa bílinn, bara láttu mig vera!“ sagði maðurinn.  „Hver ert þú? Hvar er herra Þórðarson? Hann kom til grænmetisbýlisins hans Sturlu!“ öskraði Árni. „Ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að tala um, þú ert örugglega að ruglast!“ „En þessi bíll kom á bóndabýlið mitt í gær! öskraði Árni. „Ég skil núna, ég var að fá þennan bíl í dag, ekki meiða mig!“ Árni leit á skelkaða andlitið og hægt sleppti hann takinu á peysunni. „Hvaðan fékkstu þennan bíl þá?“ spurði hann rólega. Maðurinn leit fyrst á hann í hræðslu og sagði svo „Ég man ekki alveg af hverjum ég keypti bílinn, ég man bara eftirnafnið, það var Þórðarson.“  Árni tók aftur í peysuna hans og spurði „Hvar  býr hann“. Maðurinn sagði ekkert en  tók miða úr vasanum og rétti Árna hann. „Frábært. Afsakið truflunina“ sagði hann og var farinn áður en maðurinn gat sagt neitt annað.
Hann fór að símaklefa og sló inn númerið hjá lögreglunni og beið. Þegar það svaraði sagði hann hratt: „Ég veit hver setti eitrið í grænmetið!“ „Þú aftur“ var svarað. „Jæja, hver heldur þú að hafi gert það?“ „Það er maðurinn sem býr á Kaldahrauni 24.“ Það heyrðist hár hlátur og eftir smá tíma var sagt. „Þannig að þú heldur að borgarstjórinn hafi gert það? Þetta verður bara fyndnara og fyndnara!“ Árni skellti á og gekk reiðilega út. Hann settist niður og fór að hugsa. Eftir nokkra stund var hann kominn með áætlun til að sanna sakleysi Sturlu. Hann ætlaði að brjótast inn til herra Þórðarsonar og finna sönnunargögn. Þegar hann væri kominn með þau mundi hann fara með þau til lögreglunnar og bjarga Sturlu. Að hafa þessa mynd í huga sínum setti glott á andlit hans. Hann gekk áfram að leita að rétta húsinu og svo sá hann það. Í gráum garði stóð kastali. Við þessa sjón leið næstum yfir hann. Hvernig á ég að brjótast inn í þetta, hugsaði hann. En hann reyndi að halda ró sinni. Ég bíð eftir kvöldinu og læðist svo inn um kjallaragluggann og fer svo upp að leita að sönnunum.
*
Þegar kvöldið rann yfir borgina var  Árni að bíða fyrir utan kastalann með lukt og stein í hendi. Hann læddist að hliðinu og opnaði það og þegar hann gerði það heyrði hann gelt en áður en hann gat gert eitthvað í því stökk stór hundur á hann. Árni greip í ólina hans og togaði hann af  sér og stökk í burtu. Hundurinn gelti aftur og æddi í áttina hans. Árni flýtti sér í átt að húsinu með hundinn á hælunum. Þegar hann var komin nógu nálægt henti hann steininum í gluggann og reyndi að troða sér inn. Glerið skar hann sums staðar en hann veitti því ekki athygli. Hundurinn var kominn að honum og byrjaði að rífa í skóna hans en það stöðvaði hann ekkert og hann tróð sér inn um gluggann og fann fyrir sársaukanum þegar hann datt á gólfið. Hann lá þar um stund og heyrði fótatak koma nær og nær. Og svo gekk einhver fram hjá honum.
Það leit út fyrir að hann hefði ekki tekið eftir honum en þá greip hann í járnstöng og gerði árás á Árna en hann var allt of lengi að bregðast við og fékk stöngina í öxlina. Sársaukinn streymdi niður líkama hans en hann hunsaði hann. Árni greip í hurðarhún til að komast í burtu en áður en hann gat opnað dyrnar fékk hann högg í höndina. Hann datt niður á gólfið hjálparlaus. Svo kallaði herra Þórðarson, lyfti stönginni og miðaði á höfuð hans en Árni var nógu fljótur og sparkaði með öllum krafti í hann. Maðurinn datt niður. Árni stökk upp á gólfið og greip í stöngina og miðaði á manninn. „Af hverju eitraðirðu grænmetið okkar!“ Þegar hann sagði þetta varð hann enn reiðari. „Ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að tala um“ sagði maðurinn. Árni lyfti stönginni til að hræða hann og það virkaði. „Allt í lagi! Ég skal tala! Ég eitraði grænmetið til að þið yrðuð gjaldþrota og svo mundi ég kaupa landið og nota það til að byggja stærri fyrirtæki.“  „Ertu búinn að gera þetta við fleiri? Svaraðu!“  „Nokkra aðra,“ sagði hann. Árni var orðinn svo reiður út í hann að hann var næstum búinn að berja hann en hann vissi að hann mundi þurfa að halda ró sinni. „Gefðu mér einhver sönnunargögn um þetta.“ Borgarstjórinn benti á skáp sem stóð fyrir aftan hann. Árni opnaði hann og greip í pappírsrúllu og snéri sér við. „Nú förum við upp og ég hringi í lögregluna.“ Borgarstjórinn varð náfölur. Árni potaði í hann og ýtti honum á fætur. Hann tróð honum upp stigann að símanum. Hann vissi að ef hann liti augum af honum mundi hann hlaupa í burtu frá honum þannig að hann læsti hurðinni og tók í símann.
Hann var alveg að verða búinn að slá inn númerið þegar hann heyrði smell og leit aftur fyrir sig. Þar stóð borgarstjórinn að miða byssu að honum. „Farðu að veggnum“ sagði hann. Árni gerði eins og honum var sagt. Við hliðina á honum var gluggi með gardínum dregnum niður. Við þessa sjón fékk hann hugmynd. Með einni hreyfingu reif hann gardínurnar niður með háu öskri og fór fyrir framan gluggann. Borgarstjóranum brá og skaut í gluggann. Áætlunin hans virkaði. Hann sá fjölskyldu standa á gangstéttinni með skelfingarsvip á andlitunum. Þarna hafði Árni vitni. Hann leit á borgarstjórann sem var með sama svip, hann hljóp að dyrunum til að flýja en Árni hafði þegar læst. Hann sneri sér við til að taka lykilinn af honum en Árni var nógu fljótur og sparkaði í bringu hans. Hann datt á bakið og lá þar um stund en reyndi að klöngrast aftur upp  þegar hann heyrði í sírenum nálgast. Hann hljóp um óður eins og hann hefði verið bitinn. Eftir tvær mínútur heyrðist brothljóð. Hurðin skall upp á gátt og tveir vopnaðir menn hlupu inn, „Þú ert handtekinn fyrir morðtilraun.“ „Og að eitra grænmetið mitt,“ leiðrétti Árni og rétti manninum pappírinn. Lögreglumaðurinn leit furðulostinn á blaðið. Þegar hann var búinn að skoða þetta gaf hann hinum manninum það og tók í borgarstjórann og fór með hann í burtu.

Indjánar

eftir Ásrúnu Ástu Ásmundardóttur

Hæ, ég heiti Haflína og er indjáni.  Ég er 16 ára og er dóttir höfðingjans.  Ég er af „liðuga-kyninu“.  „Liðuga-kynið“ er þannig að við erum liðugri en allir indjánarnir og við erum líka svolítið lágvaxin.  Ég er liðugust og lægst. Ég fór á veiðar fyrir nokkru síðan.   Ég og nokkrir aðrir indjánar veiddum vísund og svo veiddi ég nokkra fugla.  Við grilluðum allt kjötið og úr skinninu fékk ég skikkju.  Ég mátti síðan eiga öll beinin.
 

Kalli kartafla

eftir Sólbra Söru Leifsdóttir

  Kalli kartafla bjó í kartöflugarði einum í Þykkvabæ.  Hann bjó þar með systkinum sínum og mömmu.  Oftast var gaman hjá þeim, sérstaklega þegar það rigndi.  Þá fóru þau í alls konar rigningaleiki sem þau voru búin að búa til.  Þegar rigndi þá stækkuðu þau og stækkuðu.  Þegar þau urðu nægilega stór kom traktorinn og tók þau upp úr moldinni.  Hey, vá, sagði Kalli við systkini sín.  Sjáið þið sólina, sjáið þið hvað hún er björt og falleg.  Fljótlega fann Kalli að það var of heitt.  Þá voru þau svo heppin að þau fengu að fara í þvottavélina í kalt bað.  Þar hoppuðu þau og skoppuðu, sem var bæði notalegt og skemmtilegt.  Síðan fór Kalli í kassa og svo í poka og þar kynntist Kalli fullt af öðrum skemmtilegum kartöflum.  Síðan komu stelpa og strákur í búðina og Kalli var svo heppinn að vera í fallegasta pokanum í hillunni og þau völdu einmitt pokann með Kalla í.

Logi

eftir Ingunni Ýr Schram

Eitt sinn var strákur sem elskaði sykurmola. Hann borðaði alltaf sykurmola. Vegna sykurmolaátsins hætti hann að vaxa og varð 95 cm að hæð. 22 árum seinna var strákurinn Logi ennþá 95 cm á hæð. Hann var þá dvergur því hann var 30 ára. Hann var orðinn svo pirraður á að vera svona lítill. Hann gat aldrei farið í rússíbana því hann var svo lítill eða keypt föt í herradeildum og margt fleira. Einn daginn kom kall og sagðist vera frá Heimsmetabók Guinness og spurði hvort hann mætti mæla hann því hann væri kannski minnsti maður í heimi. Að loknum mælingunum tók hann niður fullt nafn hans og óskaði honum til hamingju með að vera minnsti maður í heimi.
Eftir það fór Logi til læknis vegna þess að hann vissi ekki að sykurmolarnir létu hann hætta að vaxa. Læknirinn spurði um mataræði hans. Logi svaraði að hann hefði bara borðað sykurmola. Þá sagði læknirinn honum að hann hætti að vaxa vegna sykurmolaátsins og til að stækka þyrfti hann að hætta að borða sykurmola og borða mjög fjölbreyttan mat. Logi fór þá út í búð og keypti pasta, kjöt, fisk, brauð, skyr og margt fleira.
Þegar heim var komið opnaði hann alla skápa og henti öllum sykri og sykurmolum og fyllti skápana af alvöru mat. Eftir tvo mánuði var Logi orðinn 230 cm á hæð. Þá kom aftur sami kallinn frá heimsmetabók Guinness og mældi hann og óskaði honum aftur til hamingju með að vera stærsti maður í heimi. Hefur Logi nú átt heimsmet í að hafa verið stærsti og minnsti maður í heimi.

Adolf banani og Napoleon tómatur

eyða heiminum!

eftir Þorbjörn Andrason og Steingrím Viljar Stefánsson

Einn dag í Bananalandi var Adolf banani búinn að ná yfirráðum þar. En þá komu vondu fréttirnar: Napoleon tómatur var að ráðast á landið. Þá varð Adolf mjög reiður og ákvað að finna upp vopn sem gæti sigrast á Napoleon tómati. Hann fann upp kjarnorkuvopn. Svo sendi hann sprengju á heimabæ Napoleons. Þá var haldinn leynilegur fundur milli Napoleons og Adolfs. Á honum sagði Napoleon:  Saman getum við stjórnað heiminum! Þeir ætluðu fyrst að ráðast á Rúsínuland (eða Rússland). Eftir nokkra daga var gjörvöll Kartafla (Bandaríkin) undir þeim. Næst sigruðu þeir Sushiland (eða Japan). Eftir það sigruðu þeir Rjómaland (eða Grænland). Þegar þeir voru búnir að sigra flest lönd heimsins vildi Adolf svíkja Napoleon og drap mömmu hans. Þá byrjaði ein stærsta heimstyrjöld sem Ávaxtaheimur hefur þurft að þola milli Adolfs banana og Napoleons tómats. Í miðju stríði kom þyrla og úr henni stökk Gaddafi agúrka með hríðskotabyssu, og drap alla í stríðinu. Eftir það ríkti friður og hamingja í Ávaxtaheiminum.