Páfugl úti í mýri 2014

Gestir
Dagskrá
Styrktaraðilar
SKRÁNINGAR

Páfugl úti í mýri  – barnabókmenntahátíð
Barnabókmenntahátíðin Mýrin fór fram í sjöunda sinn í Norræna húsinu 9.-12. október 2014. Hátíðin skreytir sig að þessu sinni litskrúðugum fjöðrum hins ævintýralega páfugls og nefnist Páfugl úti í mýri. Páfuglinn skrautlegi er þessa dagana á flakki um heiminn til að taka undir sinn verndarvæng rithöfunda og myndlistamenn sem hann flytur með sér í Norræna húsið í október til að hitta þar sagnaþyrst fólk á öllum aldri. Hátíðin nú í haust er sú stærsta frá upphafi og á henni koma fram yfir 30 rithöfundar, myndhöfundar og fræðimenn til að lesa upp, kenna sagnagerð og myndlist og hittast og spjalla um barnabókmenntir. Hátíðin er opin öllum og aðgangur ókeypis.
Páfugl úti í mýri – sýning
Páfuglinn ævintýralegi mætir með litskrúðugt safn barnabóka frá öllum Norðurlöndunum í Vatnsmýrina 4. október og slær upp sýningunu sem nefnist Páfugl úti í mýri – orðaævintýri. Sýningin er nýstárlegt ævintýraland þar sem ný og gömul börn bregða á leik með tungumál, myndmál og bækur. Sýningarstjórar eru myndlistarkonan Kristín Ragna Gunnarsdóttir og rithöfundurinn Davíð Stefánsson og stendur sýningin frá 4. október til 23. nóvember 2014. Sýningin er sú stærsta sem sett er upp í Norræna húsinu á árinu og er unnin í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, en sýningin verður hluti af dagskrá Lestrarhátíðar í Bókmenntaborg.Skólahópum verður boðið að koma á leiðsögn um sýninguna. Sýningin er opin öllum og aðgangur ókeypis.
Páfugl úti í mýri – málþing
Framtíðin í barnabókmenntum er yfirskrift málþings sem fer fram í Norræna húsinu 10. október. Á málþingið koma fræðimenn til að fjalla um stöðu barnabókarinnar á Norðurlöndunum og boðið verður upp á fyrirlestra og hringborðsumræður. Dagskráin stendur frá kl. 10—15 og skráningargjald er 3.000 kr. Innifalið í verði eru kaffiveitingar, ávextir og léttur hádegisverður.
Print
Pdf-skjöl – docs:
Dagkrárbæklingur 2014 | Program 2014
Gestir 2014
Guests 2014
Málþing: Framtíðin í barnabókmenntum
Mýrin dagskrá 2014