Orðaævintýri

 

DSC_0011_4

Á sýningunni má m.a. finna strákinn og hundinn í sögunni To af alting e. Hanne Kvist

DSC_0046_4

Trjákofinn á sýningunni er innblásinn af trjákofanum hans Rune í bókinni Brune e. þá Håkon Överås og Öyvint Torsæter.

Páfuglinn ævintýralegi mætir með litskrúðugt safn barnabóka frá öllum Norðurlöndunum í Vatnsmýrina 4. október og slær upp sýningunni Páfugl úti í mýri – orðaævintýri. Sýningin er nýstárlegt ævintýraland þar sem ný og gömul börn bregða á leik með tungumál, myndmál og bækur og byggir á sögum og efnivið úr völdum barnabókum eftir norræna rit- og myndhöfunda. Á sýningunni má m.a. finna sagnasvið og  ljóðavegg þar sem gestir fá tækifæri til að endur-ljóð-blanda klassísk íslensk ljóð, sögumannsbúninga, risapylsulestrarhorn, sirkussögustjald, bókagerðavinnustofur, sagnaáskoranir, stórbrotið trjáhýsi með földum fjársjóðum og ótal skapandi leiki fyrir alla unnendur ævintýra.
Sýningarstjórar eru myndlistarkonan Kristín Ragna Gunnarsdóttir og rithöfundurinn Davíð Stefánsson.

DAVID PORTRETT 2

Davíð Stefánsson

Kristin Ragna Gunnarsdottir-portret

Kristín Ragna Gunnarsdóttir

 
Sýningin stendur frá 4. október – 23. nóvember kl. 12-17 alla daga vikunnar nema mánudaga og er opin öllum og aðgangur ókeypis. Boðið verður upp á leiðsagnir fyrir skólahópa (1.-5. bekk) og elstu börnin leikskólum og er uppbókað í leiðsögn sem stendur en skólahópum og leikskólum stendur til boða að koma á eigin vegum þriðjudaga – föstudaga 12.00-17.00.
Sýningin er samstarfsverkefni Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO, Norræna hússins og Barnabókmenntahátíðarinnar Mýrarinnar og er hluti af dagskrá Lestrarhátíðar í Bókmenntaborg og dagskrá Barnabókmenntahátíðarinnar Páfugl úti í Mýri 2014.
Frekari upplýsingar má nálgast hjá verkefnisstjóra hátíðarinnar Tinnu Ásgeirsdóttur í s: 551 7021 eða á netfanginu myrinfestival@gmail.com