Andri Snær Magnason hefur skrifað sögur, leikrit, ljóð og fræðirit. Bækur hans hafa komið út á meira en 35 tungumálum og unnið til verðlauna innanlands og utan. Af helstu bókum má nefna Söguna af bláa hnettinum og Tímakistuna, Draumalandið og LoveStar. Um tímann og vatnið sem kom út árið 2019 hefur þegar verið seld til 30 landa. Árið 2009 leikstýrði hann Draumalandinu ásamt Þorfinni heitnum Guðnasyni. Draumalandið er aðsóknarmesta heimildarmynd Íslandssögunnar og hlaut Edduverðlaun sem heimildarmynd ársins, auk þess sem hún tók þátt í aðalkeppnum á heimildarmyndahátíðum víða um heim. Þriðji Póllinn er annað leikstjórnarverkefni Andra Snæs, í samvinnu við Anní Ólafsdóttur.