Fiona Khan er barnabókahöfundur og ljóðskáld frá Suður-Afríku. Hún er stofnandi útgáfunnar Global Forum 4 Literacy og forlagsins Washesha Publishing. Hún hefur unnið ötullega að læsi og lestrarhvatningu í Suður-Afríku síðustu 25 árin og er þar í fararbroddi í Kwa Zulu Natal héraði og víðar í landinu. Þetta starf hennar nær allt aftur til ársins 1995 þegar hún tók þátt í lestrarátaki Nelsons Mandela Lesandi þjóð er þjóð sigurvegara (e. A Reading Nation is a Winning Nation) með því að dreifa bókum í skóla og á bókasöfn og standa fyrir smiðjum til að styðja við bókmenntir, tungumál og læsi. Eitt af verkefnum Fionu snýr að því að koma bókum til sem flestra barna í heimahéraði hennar og þar leggur hún áherslu á endurnýtingu og endurdreifingu en hún hefur líka tekið þátt í viðlíka verkefnum í Jóhannesarborg og Höfðaborg en hún vinnur nú að kvikmyndaverkefni sem snýr að börnum í síðarnefndu borginni. Fiona hefur unnið við þáttagerð í útvarpi þar sem læsi, ljóðlist og fjölbreytt tungumál heimalands hennar hafa verið í fyrirrúmi. Þá lætur hún sig umhverfismál varða og hefur meðal annars unnið að og tekið þátt í ræktunarverkefnum í skólum og verkefnum sem stuðla að sjálfbærni í samfélaginu. Fiona hefur einnig unnið sjálfboðaliðastörf í samfélagsþjónustu, meðal annars með þolendum kynbundins ofbeldis og fólki sem greinst hefur með HIV. Meðal bóka hennar er barnabók um HIV sjúkdóminn með áherslu á tilfinningagreind og er bókin á námskrá grunnskóla í Suður-Afríku.
Reykjavík bókmenntaborg UNESCO býður gestahöfundi frá annarri Bókmenntaborg UNESCO til dvalar í Reykjavík í annað sinn í ár og að þessu sinni var Fionu boðið að dvelja í Reykjavík í októbermánuði ásamt því að taka þátt í Mýrinni.