Guðni Elísson er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Guðni hefur sérhæft sig í greiningu loftslagsorðræðunnar í yfir tuttugu ár og hafði helgað sig viðfangsefninu löngu áður en það færðist inn í meginstraumsumræðuna. Hann hefur farið í fjöldamörg viðtöl í útvarpi, sjónvarpi og dagblöðum og opinberu og lokuðu fyrirlestrarnir sem hann hefur flutt um efnið síðan 2007 eru farnir að nálgast eitt hundrað.
Guðni hefur skrifað bækur og rúmlega fimmtíu greinar um bókmenntir, kvikmyndir, menningarfræði og umhverfismál. Á dögunum kom út Ljósgildran en þetta er fyrsta skáldsaga Guðna og hún fjallar meðal annars um loftslagstengd efni. Hann hefur í meira en áratug kennt fjölda námskeiða sem taka á loftslagsvánni, á BA- og MA-stigi, jafnt við Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólasetur Vestfjarða og auk þess leiðbeint fjöldamörgum ritgerðum sem fjalla um loftslagsmál í víðu samhengi. Ýmsir af fyrri nemendum hans hafa orðið leiðandi í loftslagsumræðunni hér á landi og vegna samstarfs hans við ýmsa listamenn hefur loftslagsumræðan færst inn í skáldskap, kvikmyndir og leikhús, en hann hefur verið ráðgjafi rithöfunda og leikstjóra um langt skeið núna. Guðni hefur ritstýrt yfir tuttugu bókum, þar á meðal sérstöku ritrýndu tímariti um hugvísindi og loftslagsmál, Loftslagsbreytingar, frásagnir, hugmyndafræði (Ritið 1/2016) þar sem birtust ritrýndar fræðilegar greinar um loftslagsbreytingar. Auk þess fékk Guðni átta íslensk ljóðskáld (þ. á m. Steinunni Sigurðardóttur, Anton Helga Jónsson, Sjón og Gerði Kristnýju) til þess að yrkja ljóð um viðfangsefnið og hafa þau haldið þeirri vinnu áfram. Guðni sjálfur þýddi nokkur loftslagstengd ljóð tveggja bandarískra skáldkvenna og skrifaði fræðilega innganga að þýðingunum og ljóðum íslensku skáldanna. Þetta þótti mikil nýlunda fyrir aðeins fjórum árum og sýnir hversu mikið umræðan hefur breyst á ekki lengri tíma.
Guðni hefur sérstakan áhuga á afneitunarorðræðunni og því hvernig svokallaðar hugveitur (e. Think Tanks) hafa haft áhrif á umhverfismálaumræðuna í nútímasamfélögum Vesturlanda síðasta aldarfjórðunginn og hefur skrifað margar fræðilegar greinar um um loftslagsvána og umhverfismál.
Á árinu 2012 tók Guðni þá ákvörðun að hentugri leið til þess að koma veruleika loftslagsbreytinga á framfæri við almenning væri sú að færa sig af hinum ritrýnda vettvangi fræðanna yfir í almennari miðlun og eftir nokkurn undirbúning stofnaði hann vefsvæðið Earth101 árið 2013, en vefurinn er bæði upplýsingavefur og vettvangur fræðimanna til þess að kynna rannsóknir sínar.
Guðni er á þeirri skoðun að ekki sé hægt að vinna að miðlun á veruleika loftslagsbreytinga án þess að sá skilningur liti einnig persónulegt líf og kolefnislosun þeirra sem vinna á sviðinu. Á árinu 1999 setti hann sér þau markmið að takmarka flugferðir sínar að meðaltali við aðeins eina ferð á ári og undanskilja þar ekki vinnuferðir. Þetta hefur tekist því að á undanförnum tuttugu árum hefur hann flogið sjaldnar en tuttugu sinnum, en það hefur þó gert alþjóðlegt samstarf torveldara, sérstaklega í umhverfi þar sem háskólaprófessorar eru í hópi allra stærstu kolefnislosenda, en margir þeirra fljúga tíu til tuttugu sinnum á ári.