Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson (f. 1955) hefur sinnt skáldskap og tónlist jöfnum höndum og víða komið við á undanförnum áratugum. Fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1977, en síðan hefur hann sent frá sér um tvo tugi ljóðabóka með frumsömdum og þýddum ljóðum og á annan tug barnabóka af ýmsum toga. Á sviði tónlistar ber hæst hina sívinsælu barnatónlist hans, en auk þess vísnatónlist og söngva frá Norðurlöndum. Aðalsteinn Ásberg hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín og þau verið þýdd og gefin út á meira en tug erlendra tungumála.
Fyrir utan að vera afkastamikill starfandi listamaður hefur hann í meira en tvo áratugi rekið útgáfufyrirtækið Dimmu sem gefur út bókmenntir og tónlist. Nýleg verk Aðalsteins Ásberg fyrir börn og ungmenni eru Dimmu-þríleikurinn (2014) og Kvæðið um Krummaling (2017), myndskreytt af Högna Sigurþorssyni.