Áslaug Jónsdóttir

Áslaug Jónsdóttir (f. 1963) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist frá teiknideild Skolen for Brugskunst, sem nú er einn af skólum Listaakademíunnar í Kaupmannahöfn. Síðan námi lauk hefur Áslaug starfað sem myndlýsir, grafískur hönnuður, rithöfundur og myndlistamaður. Fyrsta bók hennar kom út árið 1990 en hún hefur síðan skrifað og myndlýst fjölda barnabóka, skrifað barnaleikrit og tekið þátt í sýningum erlendis og á Íslandi.
Áslaug hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, m.a. hefur hún tvisvar fengið Dimmalimm verðlaunin – íslensku myndskreytiverðlaunin; árið 2005 fyrir Gott kvöld og 2004 fyrir Nei! sagði litla skrímslið. Hún hlaut ásamt meðhöfundum sínum Kalle Güettler og Rakel Helmsdal Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur 2007 fyrir Stór skrímsli gráta ekki og með sömu höfundum Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2017 í flokki barna- og unglingabóka fyrir Skrímsli í vanda.
Verk Áslaugar hafa þrívegis verið valin á Alþjóðlegan heiðurslista IBBY fyrir myndlýsingar og hún hefur verið tilnefnd til H.C Andersen verðlaunanna og ALMA-verðlaunanna (Astrid Lindgren Memorial Award) fyrir myndlýsingar í barnabókum. Árið 2002 hlaut hún ásamt Andra Snæ Magnasyni Barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins fyrir Söguna af Bláa hnettinum sem var fyrst barnabóka til þess að fá Íslensku bókmenntaverðlaunin.

Áslaug hefur skrifað þrjú barnaleikrit og hannað leikmyndir fyrir tvö þeirra. Fyrsta leikrit hennar, Gott kvöld, vann Grímuna 2018 sem besta barnaleiksýning leikársins. Áslaug var einnig tilnefnd til Norrænu leikskáldaverðlaunanna 2010 fyrir sama leikrit. Annað leikverk hennar, Sindri silfurfiskur, var tilnefnt til Grímunnar 2010 en það verk var sett upp á leiklistarhátíðum í Lundi, Malmö and Moskvu.
Áslaug hannar jafnan útlit bóka sinna en hún hefur einnig hannað útlit sýninga, þar á meðal skapaði hún ásamt Högna Sigurþórssyni upplifunarsýninguna Skrímslin bjóða heim sem var sett upp í Gerðubergi Menningarhúsi. Sýningin var einnig sett upp í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn, Færeyjum, og mun nú ferðast til bókasafna í Danmörku í tengslum við sagnaverkefnið Fang fortællingen.
Bækur Áslaugar hafa verið þýddar á mörg tungumál, þar á meðal hafa bækurnar úr bókaflokkinum um litla skrímslið og stóra skrímslið ferðast víða. Áslaug er ásamt meðhöfundum sínum Kalle Güettler og Rakel Helmsdal tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018 af hálfu Íslands fyrir bókina Skrímsli í vanda en höfundateyminu hlotnaðist einnig sami heiður árið 2013 fyrir Skrímslaerjur.

Áslaug Jónsdóttir býr og starfar í Reykjavík en þegar hún sér færi á strýkur hún til bernskuslóðanna og dvelur á sveitabænum Melaleiti í Melasveit þar sem hún ólst upp.