Finn-Ole Heinrich

Finn-Ole Heinrich er fæddur árið 1982 og ólst upp í Cuxhaven. Fyrsta bók hans kom út þegar hann var 23 ára gamall en það var smásagnasafnið Die taschen voll wasser eða Vasar fullir af vatni eins og það myndi útleggjast á íslensku. Í verkinu skoðar höfundur, í níu smásögum, líf fólks á þrítugsaldri og veltir fyrir sér hugmyndum þeirra um lífið, dauðann, vináttuna, ástina og tilgang tilverunnar. Í fyrstu skáldsögu sinni Räuberhände (ísl. Ránshendur) fjallar höfundur áfram um stór tilvistarleg málefni. Annað smásagnasafn Finn-Ole kom út árið 2009 en árið 2011 kom fyrsta barnabók hans, Frerk du Zwerg! út. (ísl. Frerk, dvergurinn þinn!) Í sögunni segir af drengnum Frerk, og þrátt fyrir að vera ekki minnsti krakkinn í bekknum er honum strítt af skólafélögum sínum og hann uppnefndur. Frerk flýr inn í draumaheim en dag einn finnur hann óvenjulegt egg sem mun breyta lífi hans og snúa tilverunni á hvolf. Sagan þykir, líkt og fyrri verk Finn-Ole skrifuð af ríku innsæi og næmi og er bókin fallega myndskreytt af Rán Flygenring.
Árið 2012 var gerður söngleikur upp úr bókinni og hefur hann verið sýndur við miklar vinsældir.
Í þríleyknum Die erstaunlichen Abenteuer der Maulina Schmitt – Mein kaputtes Königreich
(e. “The Amazing Adventure of Maulina Schmitt – My Broken Kingdom”) segir af stúlkunni Maulina sem er 10 ára. Í sögunum gengur á ýmsu og lýsir höfundur tilveru aðalsöguhetjunnar, sem upplifir missi og hvaða afleiðingar það hefur á líf hennar. Frásögnin, sem segir af sorglegum atburðum, þykir samt spaugileg og aftur er það Rán Flygenring sem myndskreytir en samstarf hennar og Finn-Ole Heinrich hefur verið einkar gjöfult.
Heinrich hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir bækur sínar, meðal annars hin virtu Kranichsteiner Literaturförderpreis (2012),  Deutscher Jugendliteraturpreis (German Youth Literature Prize 2012), Frönsk-þýsku bókmenntaverðlaunin og LUCHS-verðlaunin.
Á þessu ári hlaut hann einnig verðlaun fyrir handritaskrif,  eða Thomas-Strittmatter verðlaunin. Finn-Ole býr og starfar í Hamborg og Suður-Frakklandi.

   

Í samstarfi við Goethe-Institut í Danmörku.