Gunilla Bergström

Gunilla Bergström fæddist í Gautaborg árið 1942. Hún lauk blaðamannaprófi árið 1966 og starfaði næstu árin sem blaðamaður við Dagens Nyheter og Aftonbladet í Stokkhólmi. Frá árinu 1975 hefur hún eingöngu starfað sem rithöfundur og teiknari.

Gunilla gaf út fyrstu bók sína Mias pappa flyttar árið 1971 en strax árið eftir kom fyrsta bókin um þekktustu persónu hennar, hinn hugmyndaríka og einlæga Einar Áskel, út.

Síðan hafa komið út eftir hana á fjórða tug barnabóka, flestar um Einar Áskel og pabba hans. Auk þess hefur Gunilla skrifað fjölmörg leikrit eftir sögum sínum og skrifað barnavísur.

Hún hefur að miklu leyti verið frumkvöðull í skrifum sínum fyrir börn, félagslegt raunsæi og lífið eins og það er hefur hún skrifað um af einlægum og næmum hætti og í fyrsta skipti í barnabók, svo vitað sé, má finna pabbann sem eina umönnunaraðilann. Gunilla varð einnig fyrsti myndhöfundurinn til að nota klippimyndir (collage) í myndskreytingum sínum.

Að hennar eigin sögn hefur hún alltaf viljað skrifa sannar sögur fyrir börn, sögur af raunverulegu fólki og atburðum sem við öll getum tengt við.  „Engar prinsessur, geimfara eða ævintýri með furðuverum, glansmyndir eða annan tilbúning. Lífið sjálft er heilmikið ævintýri og auðvitað er pláss fyrir óvæntar uppákomur og ímyndaðar aðstæður í hversdagsleikanum. Um það vil ég að sögur mínar fjalli.“ (GB)

Í fæðingarbæ Gunillu, Gautaborg má finna Barnamenningarhús, kennt við Einar Áskel.