Hjörleifur Hjartarson

Hjörleifur Hjartarson (f. 1960) er kennari að mennt en hefur samhliða kennslu starfað sem rithöfundur, textasmiður og tónlistarmaður. Eftir hann liggja nokkrar bækur í bundnu og óbundnu máli fyrir börn og fullorðna, leikrit og þýðingar.  Hjörleifur er annar tveggja meðlima hljómsveitarinnar Hundur í óskilum. Sveitin hefur gefið út tvær plötur og haldið fjölda tónleika en í seinni tíð hefur hún einkum getið sér gott orð fyrir fyndnar og fræðandi tón-leiksýningar sem notið hafa fádæma vinsælda í leikhúsum norðan og sunnan heiða og hlotið bæði Grímuverðlaun og tilnefningar fyrir.

Þá hefur Hjörleifur komið að margs konar verkefnisstjórn og textagerð fyrir söfn og sýningar. Eitt slíkt verkefni leiddi hann á slóðir fuglanna sem flögrað hafa í kring um hann æ síðan en einn fjölmargra ávaxta þeirrar sambúðar er bókin Fuglar sem hann gerði ásamt Rán Flygenring teiknara og kom út árið 2017.
Hlaut sú bók tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017 í flokki barna- og ungmennabóka.