Högni Sigurþórsson (f. 1970) er menntaður myndlistarmaður sem hefur að mestu starfað á vettvangi leikhúss og grafískrar hönnunar frá útskrift úr skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskólans árið 1998. Hann vinnur jöfnum höndum þrívítt og tvívítt og flakkar á milli miðla og eru leiksýningar með blandaðri tækni, notkun á grímum, brúðum og umbreytingu hluta úr einu í annað honum sérstakt áhugamál. Í leikmyndagerð hefur Högni einkum unnið að verkum á barnasviði Þjóðleikhússins, mætti þar helst nefna Litli prinsinn, Fíasól, Kuggur og leikhúsvélin og Umhverfis jörðina á 80 dögum. Um þessar mundir er Högni að hanna leikmynd fyrir Þitt eigið leikrit eftir Ævar Þór Benediktsson sem stendur til að frumsýna í janúar 2019.
Samhliða leikhúsvinnunni hefur Högni hannað bókakápur, plötuumslög og myndskreytt fáeinar bækur og bæklinga en Kvæðið um Krummaling, myndskreytt af Högna við ljóð Aðalsteins Ásberg Sigurðssonar og sem tilnefnd var til barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar árið 2018 er fyrsta bókin sem hann gefur út undir eigin nafni.