Hólmfríður Ólafsdóttir

Hólmfríður Ólafsdóttir starfar sem verkefnastjóri viðburða hjá Borgarbókasafninu. Hún hefur umsjón með ýmsum verkefnum og stýrir mörgum af stærri fjölskylduviðburðum safnsins eins og t.d. menningarnótt, vetrarhátíð o.þ.h. Áður vann hún í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi þar sem stór hluti af hennar verkefnum voru viðburðir fyrir börn og fjölskyldur. Hólmfríður hefur komið að verkefnum til að auka læsi og unnið þar bæði með skóla og Borgarbókasafninu.
Hún tók þátt í að skipuleggja verðlaunahátíðina Sögur en Sögur–verðlaunahátíð barnanna fór fram í Eldborg í apríl s.l. Á þessum stórviðburði í anda Kids’ Choice Awards verðlaunuðu íslensk börn á aldrinum 6-12 ára allt það sem þeim finnst standa upp úr í menningarlífinu.
Verðlaun voru veitt fyrir tónlist, leiklist, sjónvarp og síðast en ekki síst barnabókmenntir. Á hátíðinni var einnig afhentur Sögusteinninn, heiðursverðlaun IBBY, auk þess sem ungir rithöfundar, leikskáld og kvikmyndagerðarmenn hlutu verðlaun.
Markmið hátíðarinnar var að auka lestur barna, að upphefja barnamenningu og að hvetja börn til skapandi verka. Í tengslum við verkefnið var framleidd sjónvarpsþáttaröð um skapandi skrif, fjórar ritsmíðasamkeppnir voru haldnar, bókaormaráð KrakkaRÚV var stofnað, átta stuttmyndir eftir krakka voru framleiddar af fagfólki, rafbók með smásögum var gefin út af Menntamálastofnun og Borgarleikhúsið hyggst setja upp tvö leikverk eftir krakka á næsta leikári. Skoðanir barna og sköpunarverk þeirra voru sett í fyrsta sæti.
SÖGUR – verðlaunahátíð barnanna var sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Að henni standa SÖGUR – samtök um barnamenningu í samstarfi við KrakkaRÚV, Barnamenningarhátíð, Borgarbókasafnið, Borgarleikhúsið, IBBY á Íslandi, SÍUNG, Menntamálastofnun, Miðstöð skólaþróunar við HA, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, Harpa tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík, og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur.
Hólmfríður tekur þátt í málstofu á ráðstefnudegi hátíðarinnar, föstudaginn 12. október.