Janina Orlov

Janina Orlov er verðlaunaður bókmenntaþýðandi, fædd árið 1955 í Helsinki. Hún þýðir aðallega texta úr rússnesku og finnsku yfir á sænsku og er ötul við að kynna finnskar bókmenntir. Með þýðingum sínum hefur Janina, ásamt öðrum, stuðlað að uppgangi finnskra bókmennta á alþjóðavísu og hefur hún hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir þýðingarstörf sín. Hefur hún þýtt verk höfunda á borð við Sofi Oksanen, Katja Kettu, Rosa Liksom, Hannu Raittila, Fyodor Dostojevsky, Nina Sadur, Sergey Sedov og Aleksandr Pushkin.
Janina er með doktorsgráðu í rússnesku og rússneskum bókmenntum frá háskólanum í Åbo í Finnlandi og hefur langa reynslu sem kennari og fyrirlesari um barnabókmenntir við háskólann í Stokkhólmi. Hún hefur haldið fyrirlestra víða um heim á sviði bókmennta og þýðinga, skipulagt ráðstefnur um þýðingar á finnskum bókmenntum, bæði í Finnlandi og Svíþjóð og haldið Master-class námskeið um þýðingar úr finnsku við Finnska menningarhúsið í Stokkhólmi. Janina hefur skrifað fjöldamargar greinar og ritdóma um barnabókmenntasögu, sænskar- og finnskar barnabókmenntir og rússneskar bókmenntir. Skrif hennar hafa verið birt í blöðum og tímaritum á borð við Åbo Underrättelser, Tidskrift för litteraturvetskap, Horisont, Agora, Ny Tid, HBL, DN, Opsis, Norsk Litterär Årboka, Syd – Österbotten, ásamt fleirum.

Frá árinu 2008 hefur Janina Orlov skipað stóran sess innan bókmenntaheimsins í Norður-Evrópu. Hún hefur meðal annars setið í dómnefnd barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, setið í stjórn stéttarfélags rithöfundasambandsins í Svíþjóð, gjaldkeri „Three Seas” sem er höfunda- og þýðendamiðstöð á Ródos, formaður sambands rithöfunda í Eystrasaltsríkjunum og situr í ritnefnd breska tímaritsins Children’s literature in education.
Um þessar mundir skrifar Janina um bókmenntir frá fyrri hluta 18. aldar í fyrirhugaðri bók um sögu og þróun barnabókmennta í Svíþjóð.