Jenny Lucander

Jenny Lucander er frá Finnlandi og lærði barnabókamyndskreytingar og hönnun við HDK hönnunarskólann við háskólann í Gautaborg  árin 2010-2013. Jenny er einnig með meistaragráðu í félagsvísindum og BA-gráðu í félagssálfræði.

Að eigin sögn hefur Jenny mikla ánægju af að skoða þær stóru hugmyndir sem barnshugurinn veltir oft fyrir sér og margar af þeim tilfinningum sem oft geta fylgt barnæskunni. Tilfinningar á borð við sjálfsmynd, að tilheyra ákveðnum hópi, eða ekki og gleðitilfinningar á borð við hamingju, frelsi og hina miklu leikgleði sem einkennir bernskuna.

Allt þetta kýs myndhöfundurinn Jenny Lucander að túlka með myndum sínum og hafa þær stöllur, hún og Linda Bondestam starfað saman undir merkinu Vombatcombat.  Hún er meðlimur í hinum ýmsu samtökum teiknara og myndhöfunda, jafnt í Finnlandi sem Svíþjóð og samtaka höfunda barna- og unglingabóka.

Bækurnar Vildare, värre, Smilodon 2016 (texti Minna Lindeberg, myndir Jenny Lucander) og Dröm om drakar (texti Sanna Tahvanainen, myndir JL) 2015 voru báðar tilnefndar, á sitthvoru árinu, til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs eða árin 2016 og 2017.