Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur er fædd árið 1963 í Reykjavík. Hún stundaði spænskunám við Háskólann í Barcelona og Háskóla Íslands og útskrifaðist með BA-próf í fjölmiðlafræði og spænskum bókmenntum frá háskólanum í Salt Lake City í Utah í Bandaríkjunum árið 1987.
Eftir að hafa starfað sem fréttamaður á Stöð 2 í 11 ár snéri Kristín Helga sér alfarið að ritstörfum og blaðamennsku, fyrsta bók hennar, Elsku besta Binna mín, kom út árið 1997. Síðan þá hafa komið út eftir Kristínu Helgu á fjórða tug verka sem spanna allt frá skáldsögum og smásögum, jafnt fyrir yngri sem eldri lesendur, yfir í sjónvarpshandrit og lestrarefni fyrir grunnskóla. Á rithöfundarferli sínum hafa Kristínu Helgu hlotnast margvísleg verðlaun og viðurkenningar, m.a. barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins og Sögustein, barnabókaverðlaun IBBY og henni hafa einnig hlotnast margoft Bókaverðlaun barnanna en þá velja börn á aldrinum 6 – 12 ára þá bók sem þau telja skara fram úr það árið.
Nýjasta bók hennar Vertu ósýnilegur – flóttasaga Ishmaels er tilnefnd fyrir hönd Íslands til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2018 en hún hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í ár ásamt Fjöruverðlaununum og var einnig tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Höfundur lagðist í töluverða rannsóknarvinnu við skrif bókarinnar og hefur sú vinna skilað sér í sannfærandi frásögn af aðstæðum barna og ungmenna í kjölfar borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi. Hvernig hörmungar úti í heimi geta tengst okkar veruleika og svo sannarlega komið okkur við.
Fyrir utan ritstörf og kennslu hefur Kristín Helga einnig starfað sem leiðsögumaður, setið í stjórnum Náttúruverndarsamtaka Íslands og Rithöfundasambands Íslands og frá 2014 – 2018 verið formaður þess síðarnefnda.