Malene Sølvsten

Malene Sølvsten (1977) er danskur höfundur fantasíubóka. Frumraun hennar, Ravnenes Hvisken  kom út árið 2016 í Danmörku. Önnur bókin í þríleiknum kom út ári síðar og er von á síðustu bókinni seinna á þessu ári. Fyrsta bókin í flokknum Hvísl Hrafnanna kom út á íslensku árið 2017 hjá bókaforlaginu Uglu og er önnur bókin væntanleg í haust.
Í sögunum segir af unglingsstúlkunni Önnu sem elst upp í lítilli borg á Norður Jótlandi. Hún býr yfir þeirri gáfu að sjá ljóslifandi atburði úr fortíðinni. Undarlegir hlutir fara að gerast en nótt eina sér hún í anda þar sem rauðhærð stúlka er myrt og í bak hennar ristar rúnir. Anna er hundelt af illskeyttum morðingja og aðeins hennar nánustu vinir standa í vegi fyrir að hún verði illmenninu að bráð. Til þess að bjarga heiminum undan ragnarökum verður Anna að finna morðingjann — áður en hann finnur hana. Höfundur sækir innblástur sinn í norræna goðafræði og Völuspá.
Starfsferill Malene Sølvsten er um margt áhugaverður. Hún er með meistaragráðu í hagfræði og hefur starfað í mörg ár innan stofnunar á vegum danska fjármálaráðuneytisins. Áður en hún hóf hagfræðinám sitt nam hún ljósmóðurfræði en Malene hefur einnig unnið við myndlist og gerð tæknibrellna fyrir kvikmyndir. Í dag starfar hún sem rithöfundur og býr í Kaupmannahöfn ásamt eiginmanni og syni.