Marit Törnqvist

Marit Törnqvist fæddist í Uppsölum í Svíþjóð árið 1964. Þegar hún var 5 ára gömul flutti hún til Hollands ásamt hollenskri móður sinni, sænskum föður og systkinum sínum.

Á árunum 1982-1987 lærði hún myndskreytingar í Gerrit Rietveld listaskólanum í Amsterdam. Útskriftarsýning hennar vakti mikla athygli og fljótlega eftir útskrift var hún beðin um að myndskreyta bók Astridar Lindgren När Bäckhultarn for till stan (A Calf for Christmas á ensku, hefur ekki komið út á íslensku) sem varð til þess að hróður hennar sem myndhöfundar barst langt út fyrir Niðurlöndin (Holland, Belgía og Lúxemborg). Í framhaldinu af gifturíku samstarfi Astridar Lindgren og Maritar var sú síðarnefnda fengin til að hanna útlit og myndheim Junibacken skemmtigarðsins í Stokkhólmi sem byggir á söguheimi Astridar Lindgren. Garðurinn var opnaður árið 1996 að viðstöddu fjölmenni og telja gestir orðið í milljónum frá opnun hans. Marit Törnqvist hafa hlotnast margar viðurkenningar fyrir hönnun sína á myndheimi Astridar Lindgren í Junibacken.

Fyrsta skáldsaga Maritar Törnqvist, Klein verhaal over liefde (“A short story about love” eða Stutt saga um ást) kom út árið 1995 og vann sú saga til verðlauna í Hollandi. Dyrnar að bernskunni virðast ávallt hafa staðið Marit Törnqvist opnar þar sem myndskreytingar hennar í bókum höfunda á borð við Hans og Monique Hagen og Toon Tellegen hafa hlotið mikla athygli og viðurkenningar. Myndir Maritar þykja lýsa með einkar fallegum og viðkvæmum hætti hugarheimi barnsins.

Um myndsköpun sína hefur Marit sagt að það sé líkt og bein lína liggi frá hjarta hennar og yfir í höndina sem stýrir penslinum eða pennanum. Myndirnar birtast henni á blaðinu og hún velur þær af innsæi og tilfinningu. Ýmis verðlaun og viðurkenningar hefur Marit hlotið á ferlinum, m.a. Zilveren Griffel (Silfur blýantinn) árið 1995 og Gouden Penseel (Gyllta pensilinn) árið 2006.
Marit Törnqvist býr ásamt eiginmanni og tveimur dætrum í miðborg Amsterdam en stórum hluta ársins eyðir hún á bóndabýli í Suður-Svíþjóð. Bækur Maritar hafa verið gefnar út í 20 löndum.