Marloes Robijn

Marloes Robijn (1985) frá Hollandi er menntuð í norrænum fræðum, (barna)bókmenntum og
almennum málvísindum. Hún fluttist til Reykjavíkur 2016 þar sem hún vann í Norræna
húsinu og starfar í augnablikinu sem verkefnastjóri fyrir Mýrina. Í gegnum sjálfboðastarf Rauða krossins hefur hún tekið þátt í að skipuleggja verkefni fyrir börn flóttamanna og fjölskyldur þeirra og árið 2017 kom hún á fót lestrarverkefninu Lestrarvinir.
Verkefnið byggir á hollenska verkefninu VoorleesExpress sem tengir saman sjálfboðaliða og fjölskyldur með lestri. Sjálfboðaliðar lesa fyrir börnin og örva þannig bæði lestraráhuga og íslenskukunnáttu þeirra. Fjölskyldurnar fá sjálfboðaliða í heimsókn vikulega í 20 vikur og kynnir hann áhuga sinn á bókum og ánægjuna af að lesa upphátt. Þau heimsækja bókasafnið saman, lesa bækur og sjálfboðaliðarnir kynna fyrir foreldrunum leiðir til að taka virkan þátt í að örva tungumála- og lestraráhuga barnsins. Börnin sem taka þátt eru á aldrinum 2 til 8 ára og með íslensku sem annað tungumál eða þurfa á annarri tungumálaörvun að halda.
Í samvinnu við Borgarbókasafn og Miðju máls og læsis kom Marloes verkefninu á laggirnar haustið 2017. Í fyrstu lotu tóku 14 fjölskyldur og sjálfboðaliðar þátt og var verkefninu sýndur mikill áhugi meðal foreldra, kennara og sjálfboðaliða. Áframhald verður á verkefninu haustið 2018.
Marloes tekur þátt í málstofu á ráðstefnudegi hátíðarinnar, föstudaginn 12. október.