Ragnheiður Eyjólfsdóttir er fædd árið 1984. Hún ólst alla sína hunds- og kattartíð upp í gamla Vesturbænum í Reykjavík, fyrir utan þau þrjú ár sem hún bjó í Danmörku á unglingsaldri.
Með B.a. próf í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands upp á vasann flutti Ragnheiður til Árósa árið 2009 og hóf þar framhaldsnám við Arkitektskolen Aarhus. Lauk hún framhaldsnámi þaðan árið 2012. Ragnheiður er nú búsett í München, Þýskalandi, ásamt eiginmanni, tveimur drengjum og einu tíu kílóa fressi.
Ragnheiður hóf að skrifa sína fyrstu skáldsögu meðan hún var í barneignarleyfi en má segja að sú vinna hafi svo sannarlega undið upp á sig því Ragnheiður hefur nú snúið sér alfarið að ritstörfum. Ragnheiður sendi handritið af Skuggasögu – Arftakanum inn í samkeppnina um Íslensku barnabókaverðlaunin 2015 og bar sigur úr býtum. Bókin hlaut þar að auki Bóksalaverðlaunin í flokki íslenskra ungmennabóka sama ár. Henni hefur verið lýst sem ”margslunginni og spennandi furðusögu fyrir alla aldurshópa” seinni bókin, Skuggasaga – Undirheimar, kom út árið eftir (2016) og hlaut hún Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2017 í flokki frumsaminna barnabóka. Gert er ráð fyrir að ný skáldsaga eftir Ragnheiði komi út haustið 2018.