Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir

Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir er háskólanemi, bókaunnandi, prófarkarhlustari og ritstýra sem
spilar einstaka sinnum á selló. Um þessar mundir leggur hún stund á M.Ed. við Háskólann á Akureyri og stefnir á kennslu á framhaldsskólastigi. Nýliðið vor tók Sigríður þátt í verkefni meistaranema í ritlist annars vegar og ritstjórn hins vegar. Saman gaf hópurinn út bók og ber afkvæmið heitið HLJÓÐ BÓK. Og í sumar lauk hún starfsnámi í ritstjórn hjá Benedikt bókaútgáfu.
Sigríður er með B.A. í Almennri bókmenntafræði og M.A. í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu en hún lauk meistaraprófsritgerðinni sinni, „Hvað viltu lesa? – Hvað vilja ungmenni lesa og hvernig vilja þau nálgast lesefnið?“, nú í haust. Hún tók viðtöl við alls 12 ungmenni á aldrinum 16-20 ára og kannaði hvers konar bókmenntir gætu höfðað hvað mest til þessa aldurshóp en athugaði einnig hvaða útgáfuform höfðaði til þátttakenda. Tilurð þessarar rannsóknar var sú að Sigríði grunaði að vöntun væri á bókmenntum á íslensku fyrir nákvæmlega þennan aldurshóp og grunaði jafnvel, að það sem til væri, þætti ekki nógu fýsilegt til lestrar. Einnig velti hún því fyrir sér hvort örlítill, nánast ósýnilegur, menningarmunur þeirra fullorðnu sem skrifa bækur og þeirra ungmenna sem lesa bækur, geti haft áhrif á það hvers vegna það er vandsamt að gefa út bókmenntir fyrir þennan tiltekna aldurshóp.
Sigríður Kristjana tekur þátt í málstofunni DEIGLAN – ÍSLENSKAR BARNABÆKUR Í DAG OG Á MORGUN á laugardaginn 13. október.